149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:09]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Fyrst varðandi fyrri spurningu hv. þingmanns um árangurshlutfall umsókna í rannsóknar- og nýsköpunaráætlun ESB. Þetta er hluti af sviði menntamálaráðherra þannig að ég þekki ekki nákvæmlega af hverju það er sama prósenta. Það eru örugglega einhverjar mjög góðar skýringar á því sem hv. þingmaður er síðan mögulega ósammála, en ég þekki það ekki nægilega vel.

Varðandi hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í orkubúskap Íslands er ég alveg sammála hv. þingmanni að því marki að þetta er varfærin spá. Þetta er samkvæmt hefðbundinni orkuspá. Auðvitað vona ég að í næstu áætlun sjáum við okkur fært að setja hærri prósentu en það er háð alls konar öðrum þáttum. Til að mynda í samgöngum snýr það að mjög miklu leyti að framboði þessara bifreiða á Íslandi. Miðað við áform áhugasamra framleiðanda í því samhengi gæti ég alveg trúað, ef vel tekst til, að sú prósenta fari verulega upp þegar við erum komin með aukið framboð þannig að allir sem hafa áhuga geti fengið bíl og sömuleiðis að við séum komin á þann stað að verðið á slíkum bifreiðum sé þannig að hefðbundin venjuleg fjölskylda hafi efni á þeim, sérstaklega þegar um er að ræða fjölskyldu sem er bara með eina bifreið. Við vitum að þróunin í dag er almennt sú að þeir sem eru með tvo bíla eru með seinni bílinn svona.

Ég vona að á næsta ári verðum við með prósenturnar hærri og viðurkenni alveg að þetta er varfærin spá. Það má deila um hvort við ættum að vera með hærri prósentu.