149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:11]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Varðandi fyrri þáttinn eru rannsóknaráætlanir vissulega á sviði menntamálaráðherra en það breytir því ekki að nýsköpunarfyrirtæki stunda mikinn hluta þessara rannsókna. Maður hefði haldið að hlutverk nýsköpunarfyrirtækja kæmi inn á starfssvið hæstv. ráðherra.

En varðandi hitt er áhugavert að hæstv. ráðherra segir ítrekað spá, að þetta samræmist orkuspá. Málið er að þetta er ekki spá heldur markmið. Auðvitað er ríkisstjórninni það í sjálfsvald sett að setja markið töluvert hærra en spá segir til um. Ef við ætlum bara að fylgja spánni getum við í rauninni látið sem hagkerfið sé á sjálfstýringu og ríkisstjórnin hafi ekki nein áhrif. Ef við aftur á móti segjum: Við ætlum að setja okkur metnaðarfull markmið um að takast á við loftslagsmálin og við ætlum að vinna með t.d. sjávarútvegi í því að bæta hlutfallið upp í 5, 6, 7% á næstu fimm árum (Forseti hringir.) erum við komin út í alvöruaðgerðir sem samræmast kannski metnaðarfullri áætlun metnaðarfullrar ríkisstjórnar.