149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:14]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Í upphafi er rétt að þakka fyrir að hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin leggi áherslu á nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar. Ég held að allir geti verið sammála um að það sé góð og mikilvæg nálgun.

Framtíðarsýn ráðherrans fyrir hönd málaflokksins er ákaflega metnaðarfull. Hún gerir ráð fyrir því að Ísland verði í forystuhlutverki á þessum sviðum. Það er óhætt að segja að til þess að svo geti orðið, þó að við séum nú dugleg, þurfi að halda aldeilis vel á spöðunum á öllum vígstöðvum.

Við erum, held ég, flest sammála um það að kosta kapps um að tryggja að þeir fjármunir sem eru lagðir í málaflokkinn skili sér í auknum þjóðarauði, verðmætum störfum og stórauknum útflutningi. Það kemur fram í áætluninni að það sé ætlunin að stofna nýjan fjárfestingarsjóð sem eigi að fjárfesta í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Það kemur hins vegar ekki fram í áætluninni hve stór sá sjóður verði né hvernig eigi að fjármagna hann — að öðru leyti en því að þar er talað um að þetta verði meðfjárfestasjóður. Það er gert ráð fyrir einkafjármagni inn í fjárfestingarnar þannig að þeir fjárfesti með sjóðnum.

Getur hæstv. ráðherra upplýst um hversu stór þessi sjóður verður? Og þá hvernig hlutur ríkisins verður þar? Og eins hvaða hugmyndir eru um hvers eðlis fjárfesting ríkisins er, hvernig hún verður innheimt og hvaða ávöxtunarkrafa verður gerð til hennar?

Og svo önnur spurning: Gert er ráð fyrir því að stórauka endurgreiðslur til rannsóknar- og þróunarkostnaðar fyrirtækja, það kom fram í máli hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra. Getur hæstv. ráðherra skotið á það hversu mikil aukning verður á tímabilinu?