149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:16]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Svo ég svari þeirri fyrstu er gert ráð fyrir því að fjármagnið komi frá arðgreiðslum Landsvirkjunar, þ.e. að það sé hluti af þeim nýsköpunarpeningum, fjármunum, sem ekki er gert ráð fyrir að fari inn í þjóðarsjóð tímabundið til fimm ára heldur í verkefni á sviði nýsköpunar. Þess vegna er það boðað í fjármálaáætluninni.

Varðandi stærðina vonast ég til þess að við getum komið sjóðnum á fót núna á þessu ári, en það markast af því að hann verður ekki í fullu sniði strax þá. Um nákvæma tölu þori ég ekki að segja til núna. Það hversu stór sjóðurinn verður eða hvað okkur tekst að komast langt á þessu ári ræðst bara af því hvenær nákvæmlega nýsköpunarstefnu er skilað og hvernig vinnu vindur fram, hvað þetta tekur langan tíma.

Hvað varðar ávöxtunarkröfu og aðra slíka þætti er sú útfærsla eftir. Það sem er verið að boða hér er að þessi sjóður verði búinn til, að fjármagnið í hann komi úr arðgreiðslum Landsvirkjunar, sem annars færu í þjóðarsjóð og þetta sé þungamiðjan í þeim fjármunum.

Nú er ég að reyna að muna seinni spurninguna ... (JSV: Um endurgreiðslu.)— Um endurgreiðslu. Það er auðvitað búið að hækka þakið upp í 600 milljónir. Fjármálaráðuneytið hefur í rauninni vanmetið greiðslurnar þannig að við erum að hækka það enn frekar núna.

Hvernig það kann að þróast þori ég ekki að segja til um. En það sem við þurfum líka að passa er að eftirfylgnin með þessum útgreiðslum sé nægilega mikil þegar við tökum ákvörðunina þannig að við séum viss um að féð fari allt í réttu verkefnin.