149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:20]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Fjármunir í nýsköpunarmálin eru þar fyrir utan, það er þetta eru fjármunir sem fara aldrei inn í þjóðarsjóðinn heldur eru þeir teknir frá áður en fjármunir fara inn í þjóðarsjóð. Það er gert tímabundið í fimm ár.

Hvað varðar síðari spurninguna, er það alveg rétt að við höfum auðvitað átt í vandræðum með að halda stærri fyrirtækjum hér á landi. Það er líka vandamál sem mörg önnur lönd glíma við sem eru með allt aðrar aðstæður en við hér. En við þurfum að leggja okkur betur fram við að tryggja að umhverfið sé með þeim hætti að fyrirtækin haldist hér. Það er m.a. út af því sem ég er þeirrar skoðunar að við eigum að stefna hátt þegar kemur að endurgreiðslum í rannsóknum og þróun, af því að þar segjum við: Hér ætlum við að staðsetja okkur. Hér ætlum við að vera sterk og hér viljum við að fyrirtæki hafi starfsstöðvar sínar þegar kemur að rannsókn og þróun, jafnvel þótt ákveðnir aðrir þættir (Forseti hringir.) séu annars staðar.

Ég er alls ekki sammála því að það sé ómögulegt. Á endanum verður þetta alltaf hagsmunamat. Það fylgja því (Forseti hringir.) gallar að vera með sjálfstæða mynt, en það fylgja því líka kostir.