149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:21]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að tala um fjármálaáætlun, hæstv. ferðamálaráðherra. Í yfirferð minni yfir ferðamálin sá ég ekki nefnt á nafn aðgengi fatlaðra einstaklinga í sambandi við ferðamál, hvorki innlendra né erlendra. Það er auðvitað ein af meginstoðunum að allir eigi sama rétt og jafnan aðgang að ferðamannastöðum landsins.

Síðan er annað í þessu, það eru hvergi nefndir á nafn fatlaðir einstaklingar eða aðgengi þeirra að hótelum eða gistihúsum. Í því samhengi er líka vert að benda á Nýsköpunarsjóð, sem var verið að tala um. Þar væri gaman að vita hvort eitthvert fé sé eyrnamerkt til nýsköpunar í aðgengi ferðamannastaða eða fé þar varið fyrir fatlaða einstaklinga, til nýsköpunar.

Það er eins og ég segi með aðgengið, það hefur verið mjög slæmt og virðist vera mjög erfitt að fá upplýsingar, eins og þær sem ferðamenn þurfa að fá sérstaklega í sambandi við hópferðabifreiðar. Það er mjög erfitt að vita til þess að þær séu ekki þannig útbúnar að fatlaðir einstaklingar geti yfirleitt ferðast um landið í þeim, hvað þá þegar þeir koma á áfangastað — hvað tekur þá við?

Ég ætla bara að spyrja hæstv. ráðherra: Hvers vegna er ekkert um þetta í þessari fjármálaáætlun?