149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:24]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Fyrst varðandi það hvort það séu eyrnamerktir fjármunir í uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum úr nýsköpunarsjóðnum, ef ég skildi hv. þingmann rétt þá er ekki svo. En útfærslunni er heldur ekki lokið þegar kemur að þessum sjóði. Markmið hans og tilgangur er annar en það sem hv. þingmaður nefnir.

Það er kannski frekar að þetta ætti við um t.d. Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, sem við vorum að tilkynna úthlutanir úr í dag. Það er samkeppnissjóður, töluvert fjármagn er í honum. Ég þori ekki að lofa því en mig minnir að við höfum sett inn í umsóknir þar að haka þurfi við hvort viðkomandi verkefni tryggi jafnt aðgengi allra eða ekki.

Að sjálfsögðu er þessum hagsmunum og réttindum fólks haldið á lofti við mig þegar kemur að úthlutun opinbers fjár til verkefna. Það sem ég hef hugsað er hvort verkefni sem tryggja þetta eigi að vega þyngra eða jafnvel hvort hægt sé að gera kröfu um það, hugsanlega með einhverjum undantekningum ef svo ber undir, en svona alla jafna. Vegna þess að oft er þetta nú þannig að fólk þarf bara að muna eftir að setja á sig þessi gleraugu og hugsa út í þetta. Það er sú eilífa barátta sem ég trúi vel að sér mjög þreytandi að þurfa að standa í, af því þetta á að vera sjálfsagður hlutur.

Ég tek eftir því að það eru ákveðnir aðilar á samfélagsmiðlum sem alltaf spyrja um það sama, sem er bara mjög gott, til að stuðla að því að fleiri setji á sig þessi gleraugu, hvort sem það eru sveitarfélög eða einstaklingar eða við að nota skattfé til að byggja upp innviði á ferðamannastöðum, að það sé tryggt.

Til dæmis þegar ég fór í heimsókn til Bandaríkjanna. (Forseti hringir.) Þar er það þannig að það er skylda, sérstaklega innan þjóðgarða og annars staðar, að tryggja þetta aðgengi, þrátt fyrir (Forseti hringir.) að það eigi kannski ekki við um allan staðinn, en þó þannig að allir hafi tækifæri til að (Forseti hringir.) njóta áfangastaðarins og náttúrunnar.