149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:27]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni. Það eru auðvitað sjálfsögð réttindi, fyrir utan að það er bara miklum mun skynsamlegra að við pössum upp á þetta þegar við erum að fara af stað í uppbyggingu í stað þess að gleyma því — því að oft er þetta ómeðvitað — og þurfa svo að þræða okkur til baka og laga til hluti sem við erum nýbúin að setja fjármuni í að gera, í stað þess að gera almennilega frá upphafi. Því af nógu er að taka, öllu hinu sem við gerðum fyrir löngu síðan og þurfum líka að laga til að tryggja aðgengi allra.

Varðandi hleðslustöðvarnar þakka ég hv. þingmanni fyrir þessa ábendingu og kem henni áleiðis, en veit líka að þetta hefur komið upp áður á fundum þegar við erum að reyna að vinna þessi mál áfram. Það er verið að vinna í því sérstaklega hvernig hægt sé að koma til móts við þetta. Að sjálfsögðu viljum við, ekki bara til að ná okkar markmiðum heldur til þess að þessi tækni og þessi auknu þægindi séu fyrir alla, að allir geti hlaðið bílinn sinn en ekki bara sumir.