149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:34]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Mig langar að ræða aðstæður öryrkja í dag, sérstaklega hvernig því er haldið fram að forsenda þess að afnema krónu á móti krónu skerðingu sé innleiðing starfsgetumats.

Ég vil nefna þetta hér þar sem ég get með engu móti skilið hvernig hægt er að stilla því svona upp. Ég sé í fjármálaáætluninni að stjórnvöld virðast vera meðvituð um sveigjanlegan vinnumarkað og kosti sveigjanleikans til hagþróunar. Því hef ég saknað þess að stjórnvöld leggi meiri áherslu á hlutastörf innan hins opinbera. Þannig væri komið tækifæri fyrir þá sem vilja leggja sitt af mörkum á vinnumarkaði.

Það er vissulega í gangi samstarfsverkefni sem kallast 4DX og er tilraunaverkefni, eins og ég les það í fjármálaáætluninni — á blaðsíðu 137 fyrir áhugasama — en virkar reyndar fullflókið fyrir mig. Ég væri til í að ráðherra útskýrði fyrir okkur hvernig það virkar og hvort hann hyggist ekki á einhverjum tímapunkti breiða það um allt land, að því gefnu að það gefi góða raun.