149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:36]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Þetta voru eiginlega tvær spurningar. Í fyrsta lagi hvernig króna á móti krónu tengdist starfsgetumati. Í stjórnarsáttmála þeirrar ríkisstjórnar sem nú er starfandi er kveðið á um það að ráðist verði í starfsgetumat og samhliða sett fjármagn í að afnema skerðingar og bæta kjör þessa hóps.

Það hefur verið í gangi vinna er varðar starfsgetumat og í tengslum við hana er gert ráð fyrir að stigin verði skref í afnámi skerðinga. Boðað hefur verið af stjórnarmeirihlutanum og ríkisstjórninni að þetta haldist í hendur.

Síðan er það verkefnið 4DX sem getið er um í fjármálaáætlun. Unnið er að undirbúningi þess að setja verkefnið af stað. Verkefnið miðar m.a. að því að kerfin okkar sem þarna koma að, Vinnumálastofnun, hlutar innan heilbrigðiskerfisins og aðrir, vinni þéttar saman þegar kemur að málefnum örorkulífeyrisþega og nýgengi. Ég held að þetta sé mjög spennandi verkefni. Það er kannski ekki komið á það stig að hægt sé kynna það opinberlega af miklum krafti en menn eru að forma það. Menn eru að klára þetta samtal og forma með hvaða hætti það geti orðið þannig að hægt sé að vera með þéttara samstarf sem miði að því að við missum færri einstaklinga út af vinnumarkaði og inn á örorkulífeyri. Sérstaklega á það við um ungt fólk sem fer út af vinnumarkaði vegna andlegra erfiðleika eða sjúkdóma.