149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:40]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Mér sýnist á fjármálaáætlun til næstu fimm ára að enn einu sinni eigi að skilja aldraða og öryrkja eftir. Að vísu er gert ráð fyrir 4 milljarða viðbót vegna breytinga á greiðslukerfi almannatrygginga en það er ekki upp í nös á ketti, leyfi ég mér að segja, ef fara á í umbætur á kjörum öryrkja.

Kjör þeirra sem þurfa að reiða sig á greiðslur Tryggingastofnunar eru allt of léleg. Lífeyrir hjá fólki í sambúð nær ekki lágmarkslaunum. Það eru aðeins þeir sem búa einir og fá heimilisuppbót — sem skerðist krónu á móti krónu — sem ná lágmarkslaunum. Það er til skammar að þessi ríka þjóð sem við erum búi svo illa að öryrkjum og öldruðum eða þeim sem treysta nánast einungis á greiðslur Tryggingastofnunar.

Í texta um málasvið 27 sem ber yfirskriftina Örorka og málefni fatlaðs fólks er talað um fjölda öryrkja, með leyfi forseta:

„Verði ekkert að gert er áætlað að öryrkjum muni fjölga um 1,9% að jafnaði á ári til ársins 2030 og verði fjöldi öryrkja þá 22.800 talsins sem er um 31% fjölgun frá árinu 2017. Hlutfall öryrkja af mannfjölda á vinnualdri verði þá orðið 9,2% og framreiknaðar greiðslur áætlaðar um 90 milljarðar kr.“

Herra forseti. Mér finnst stundum að þegar talað er um fjölgun öryrkja sé engu líkara en að einhverjir telji að það sé við öryrkja sjálfa að sakast að þeim fjölgi. En er það ekki einmitt svo að það er stoðkerfisvandi sem hrjáir öryrkja? Þar eru konur í meiri hluta. Síðan eru það geðræn vandamál. Þar eru ungir karlar margir. Eigum við þá ekki, forseti — og ég vil spyrja hæstv. ráðherra um það — að setja peningana og úrbæturnar í vinnuvernd og í geðheilbrigðisþjónustu? Ef við gerðum það, myndi þá ekki öryrkjum fækka?