149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:42]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé hárrétt hjá hv. þingmanni og ég er algerlega sammála því að þetta er gríðarlega mikilvægt gagnvart þessum hópi, þar sem við sjáum örorku færast í vöxt. Varðandi geðræn vandamál sjáum við ungt fólk fara allt of snemma á örorku. Ríkisstjórnin er að undirbúa mjög róttækar breytingar til að geta gripið fyrr inn gagnvart ungu fólki sem lendir þannig út af brautinni því að við viljum ekki missa þessa einstaklinga inn á örorku.

Varðandi stoðkerfisvandann held ég að það séu líka fjölþættar ástæður þar. Það er álag á vinnumarkaði, hvernig vinnumarkaðurinn er uppbyggður. Það er samspil heimilislífs og vinnumarkaðar og álag, sérstaklega þegar við erum að tala um stoðkerfisvanda hjá konum, það er gríðarlegt álag þegar kemur að því. Þar þurfum við ekki eingöngu að hugsa um vinnuvernd, sem við erum reyndar að gera í mjög auknum mæli og eru breytingar í gangi innan Vinnueftirlitsins við að færa fókusinn á það, leggja meiri áherslu á vinnuvernd með breyttri forgangsröðun.

Varðandi vinnumarkaðinn almennt erum við með í gangi tilraunaverkefni sem snýr að styttingu vinnuvikunnar hjá hinu opinbera. Það þarf breytta sýn á þessi mál, ekki eingöngu út frá einhverjum einum þætti. En við þurfum líka að aðstoða það fólk sem komið er á þann stað til að komast aftur út á vinnumarkaðinn. Ríkisstjórnin hefur talið að besta leiðin til þess sé að gera breytingar á endurhæfingarkerfinu okkar, láta kerfin tala saman og innleiða nýtt starfsgetu- og endurhæfingarkerfi samhliða.

Við erum kannski ekki sammála, ég og hv. þingmaður, um með hvaða hætti það er gert en við erum sammála, held ég, um nauðsynina á því að það sé gert.