149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:45]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil bara segja um þetta að það eru ekki kerfisbreytingar sem munu fækka öryrkjum. Það eru hins vegar aðgerðir sem eru fyrirbyggjandi. Þangað eigum við að setja peningana.

Stofnframlög til almennra íbúða eru aukin um 3,8 milljarða en heildarútgjöld til húsnæðisstuðnings lækka hins vegar ef við horfum á húsnæðismálin í heild. Þannig eru engin áform um að endurreisa vaxtabótakerfið sjáanleg eða stuðningur við fyrstu kaupendur, ég finn það ekki í áætluninni. Ég bið hæstv. ráðherra um að benda mér á ef það er að finna einhvers staðar. Þannig að ágætar tillögur átakshóps í húsnæðismálum eru ekki fjármagnaðar.

Allir segjast vera sammála um að húsnæðisvandinn og kostnaðurinn við að hafa þak yfir höfuðið sé af þeim skala að vandinn verði ekki leystur nema með aðkomu stjórnvalda. Stjórnvöld setja fram ágætar hugmyndir en fjármagna aðeins eina. Það er allt og sumt.

Telur hæstv. ráðherra að aukin stofnframlög upp á 3,8 milljarða (Forseti hringir.) muni leysa húsnæðisvandann, bæði það efnahagslega og velferðarhlutann?