149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:46]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að það er ekki fjármagn inni í þessari fjármálaáætlun sem snýr að fyrstu kaupum, enda er sá hópur að störfum núna og þar er verið að vinna aðgerðir sem verða, held ég, mjög góðar. Þær verða kynntar þegar vinnslu við þær verður lokið. Það væri mjög óeðlilegt að við værum búin að setja inn nákvæmlega fjármagn fyrir þeim í fjármálaáætlun og þess vegna kom ég inn á það í upphafsræðu minni að þar þyrfti að grípa inn í.

Ég held að það væri að mörgu leyti betra en núverandi vaxtabótakerfi að innleiða nýtt fyrstu kaupa kerfi og það er það sem ríkisstjórnin vinnur að. Varðandi tillögur átakshóps í húsnæðismálum vil ég hvetja hv. þingmann til að lesa þær vel yfir vegna þess að það eru ekki allar þær tillögur þar inni sem gert er ráð fyrir því að þurfi milljarða af fjárlögum. Við getum náð auknum slagkrafti með mjög mörgum aðgerðum sem þar eru inni og það hefur verið mjög mikil ánægja hjá stéttarfélögunum og Samtökum atvinnulífsins, bæði með tillögur átakshópsins og alla eftirvinnu í tengslum við þær.