149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:47]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vildi fá að ræða hér við hæstv. félags- og barnamálaráðherra um svokallaðan þriðja geira út frá fjölskyldumálum, ekki síst barnamálunum — og ég fagna þeirri áherslu sem ráðherrann hefur lagt á þann málaflokk — um hvað það kostar mikið að gera ekki neitt í upphafi.

Það er miklu dýrara að bregðast ekki strax við en að setja fjármagn í svona mikilvægan málaflokk eins og forvarnir og ýmis úrræði eru. Þá skiptir miklu máli að úrræðin séu á fyrsta stigi þannig að við séum ekki alltaf að bregðast við á þriðja stigi.

Það er mín skoðun. Mig langaði að ræða hana við hæstv. ráðherra og hvernig við náum að tryggja einhvern fyrirsjáanleika í því hvernig við getum nýtt krafta okkar með þeim félagasamtökum sem eru í þriðja geiranum. Þar vil ég fá að nefna SÁÁ, Hugarafl, Samhjálp og fleiri sem eru í því að veita opin úrræði með valdeflingu í huga og eru svolítið að auka flóruna.

Þessi félög eru oft þau sem geta margfaldað hverja krónu í þeirri þjónustu sem verið er að veita í staðinn fyrir að þetta sé á vegum einhverrar stofnunar eða einhverra sem þurfa alltaf að fara eftir einhverjum ströngum kössum.

Hvernig getum við unnið með þessum félögum og veitt þeim fjármagn með einhverjum fyrirsjáanleika þannig að það komi fyrirsjáanleiki í þeirra rekstur? Og aukið þannig um leið við úrræðin og eflt þau til langs tíma og komið svolitlum stöðugleika í þetta starf?