149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:52]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör og tek undir að ég held að við þurfum að koma þessu í einhverjar fastar skorður þannig að þessa sé vel getið í fjármálaáætlun svo þessi hópur félagasamtaka sjái svolítið fram í tímann, geti gert svolítil plön og fengið svolítinn stöðugleika. Það hjálpar þeim að sinna sinni kjarnastarfsemi.

Þá þurfum við líka að hafa í huga að hafa ekki samskiptin við of marga þannig að allir fái lítið og noti það bara í framkvæmdastjórann. Það þarf að fara í hina raunverulegu starfsemi.

Þá langar mig einmitt að nefna hér eitt annað dæmi um að það eru líka sveitarfélögin og félagsþjónustan sem vinna mörg góð verkefni sem spretta upp og dreifast. ART-verkefnið hófst á Suðurlandi en er nú komið út um allt land. Þar hefur einmitt sama vandamálið verið með að ná langtímasamningum til að verkefnið sé ekki alltaf að eyða tíma í að verja sjálft sig heldur geti sinnt því sem það á að sinna.