149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:53]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Já, það er alveg rétt að það þarf aukið fjármagn inn í fjölmarga geira. Ég ætla ekki að gera lítið úr því. Það á við um félagsmálin eins og marga aðra málaflokka í okkar samfélagi.

Það eru þó að fara um 200 millj. kr., sérstaklega eyrnamerktar í félagsmálaráðuneytinu, til frjálsra félagasamtaka af svokölluðum gömlu safnliðunum sem voru lengi vel á hendi fjárlaganefndar. En umsóknirnar eru gríðarlega háar þar. Sótt er um rúmlega tvöfalda þá upphæð á hverju ári. Það er svo mikil og öflug flóra af frjálsum félagasamtökum sem við myndum gjarnan vilja styðja.

Síðan eru ákveðin verkefni sem erfitt hefur verið að gera langtímasamninga um. ART-verkefnið er eitt þeirra. Aflið á Akureyri er annað verkefni sem hefur verið í einhverjum borðtennis á milli framkvæmdarvaldsins og fjárveitingavaldsins. Það eru fleiri félagasamtök sem bíða. Það er gríðarlega mikilvægt að við náum að greiða úr þessu en því miður er það svo að á núverandi fjármálaáætlun er hvorki Aflið né ART inni þannig að það þarf að leita enn á ný (Forseti hringir.) einhverra lausna þar til skemmri tíma.