149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:54]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég ætla að byrja á að vitna í kafla 27 um örorku og málefni fatlaðs fólks, með leyfi forseta:

„Framtíðarsýn málefnasviðsins er að fólk með skerta starfsgetu njóti mannréttinda, valfrelsis og sjálfstæðis og geti verið virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðissamfélagi í nútíð og framtíð. Fólk með skerta starfsgetu geti lifað sjálfstæðu lífi á eigin forsendum þar sem það framfleytir sér með tekjum sínum og nýtur viðeigandi stuðnings, þjónustu og greiðslna eftir þörfum á mismunandi þjónustustigum.“

Þennan fallega texta er að finna í kafla um framtíðarsýn og meginmarkmið. Þessi fallegi texti er samt bara draumsýn á meðan fatlað fólk þarf að lifa við kvóta og þá þjónustu sem gerir því kleift að lifa sjálfstæðu lífi og öryrkjum er haldið í fjötrum fátæktar vegna lágs lífeyris og krónu á móti krónu skerðingar. Hvar eru mannréttindin? Hvar er valfrelsið? Hvar er sjálfstæðið? Hvar er getan til að framfleyta sér?

Í kafla um helstu áskoranir og tækifæri til umbóta er rakin sú aukning sem hefur orðið á einstaklingum sem fá örorkumat og svo kemur fram í textanum, með leyfi forseta:

„Verði ekkert að gert er áætlað að öryrkjum muni fjölga um 1,9% að jafnaði á ári til ársins 2030 …“.

Augljóst er af markmiðum og aðgerðum að það er sérstakt markmið að fækka einstaklingum sem fá örorkumat og það á að gera með því að leggja meiri áherslu á getu fólks til að starfa með nýju starfsgetumati.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hvað er það við starfsgetumatið sem ráðherra telur að muni hafa þau áhrif að fækka örorkulífeyrisþegum fram yfir afnám krónu á móti krónu skerðingar? Sér ráðherra ekki að afnám krónu á móti krónu skerðingar gæti leitt til nákvæmlega sömu niðurstöðu í mun víðari sátt? Enda myndi sú aðgerð styðja við markmið ráðherra um mannréttindi, valfrelsi og sjálfstæði og myndi gera öryrkjum kleift að feta sín spor út á vinnumarkaðinn á sínum hraða og á sama tíma að ná að hlúa að heilsu sinni og ná bata á sínum eigin forsendum.