149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:57]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Það er alveg hárrétt að markmið núverandi ríkisstjórnar er að draga úr nýgengi örorku miðað við þær tölur sem við höfum og hafa verið kynntar fyrir nefndum þingsins. Í þennan málaflokk fór árið 2016 41 milljarður en að óbreyttu fara 90 milljarðar til málaflokksins árið 2030 og þetta er miðað við að engu sé bætt við í þennan hóp. Þarna er 50 milljarða aukning, bara miðað við fjölgunina án þess að við bætum kjör einstaklinga í hópnum. Það þarf svo sannarlega að bæta kjör fólks, örorkulífeyrisþega.

Á meðan okkur tekst ekki að vinna betur úr því sem snýr að einstaklingum sem eru bæði með stoðkerfisvanda og andlega sjúkdóma, að halda því fólki og aðstoða það við að vera áfram á vinnumarkaði, þá er svigrúm ríkissjóðs, og verður til lengri tíma, mjög lítið til að geta bætt við þá hópa eins og þessi aukning gefur til kynna.

Varðandi spurningu hv. þingmanns, um afnám krónu á móti krónu skerðingar, hvort það muni eitt og sér draga úr þessari fjölgun, þá held ég að það dugi ekki eitt og sér. Ég held að fleiri úrræði þurfi til. Þess vegna eru menn í vinnu um starfsgetumat og breytt skipulag á endurhæfingu. Ég held að þetta þurfi að koma sameiginlega. Það er stefna núverandi ríkisstjórnar. Það var líka stefna fyrrverandi ríkisstjórnar að vinna málin með þeim hætti.

Ég held að það þurfi heildstæðari nálgun á þetta. Afnám krónu á móti krónu skerðingar, vissulega hefur það áhrif gagnvart ákveðnum hópum en við verðum að setja þetta í samhengi við það að hópur örorkulífeyrisþega, þeir sem eru að koma nýir þar inn, er mjög ólíkur hópur. Það er ekki víst að króna á móti krónu skerðing hafi áhrif á einn hóp þó að það hafi áhrif á annan. Allt spilar þetta saman.