149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:59]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra skýr svör. Ég er ósammála honum en það er bara oft þannig. Það er nefnilega svo að þegar við afnemum krónu á móti krónu skerðingar erum við að skapa þarna öryggisnet sem er gríðarlega mikilvægt, sérstaklega fyrir þann hóp öryrkja sem dílar við ofboðslega mikinn kvíða. Að skapa þetta öryggisnet, að lyfta þessum kvíða felur í sér að fólk geti farið að taka sín skref inn á vinnumarkaðinn á sínum hraða og það skiptir gífurlega miklu máli.

Fram kemur í umfjöllun um fjármögnun málefnasviðsins að verja eigi 4 milljörðum kr. aukalega vegna fyrirhugaðra breytinga á bótakerfi almannatrygginga. Þó er einnig nefnt að í útgjaldaramma málefnasviðsins er innbyggt svigrúm til að bregðast við hugsanlegri útgjaldaaukningu vegna leiðréttinga á örorkugreiðslum af völdum búsetuskerðingar.

Mig langar að spyrja hversu há þessi fjárhæð er. Hvað þýðir þetta? Hvað er innifalið í þessu innbyggða svigrúmi? (Forseti hringir.) Nú skilst mér einnig að það hafi verið 4 milljarða kr. svigrúm í ár til að minnka krónu á móti krónu skerðingar á öryrkja. Ég velti fyrir mér: Hvað þurfa öryrkjar að bíða lengi ef þeir peningar eru til staðar? (Forseti hringir.) Af hverju getum við ekki byrjað að minnka þessar skerðingar strax til að sjá hvaða áhrif það myndi hafa á lífsgæði þessa hóps og getu þeirra til að ná heilsu?

(Forseti (JÞÓ): Forseti minnir þingmenn á að halda ræðutíma.)