149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:00]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Já, ég held að það þurfi fleira til en eingöngu afnám krónu á móti krónu skerðingar. Við hv. þingmaður erum sammála um að það er mjög veigamikill þáttur í þessu og er eitt af þeim atriðum sem þar skipta máli.

Það er almennt gert ráð fyrir að útgjaldaramminn sé einhvers staðar á bilinu 1% og upp í 2%, sem sé innbyggt fyrir svigrúm, en þó getur það verið breytilegt og aukning á nýgengi og annað hefur áhrif á það.

Hvað þurfa örorkulífeyrisþegar að bíða lengi eftir að þetta verði afnumið? Það er alveg ljóst og við höfum farið yfir það að það hefur verið stefna núverandi ríkisstjórnar, og kemur fram í stjórnarsáttmála hennar þegar hún var mynduð, að markmiðið væri að innleiða starfsgetumat og samhliða því yrði afnumin krónu á móti krónu skerðing og kjör þessa hóps bætt. Vinna við það hefur verið í gangi. Henni er ekki lokið. Það hefði enginn, (Forseti hringir.) ja, ósk þess er hér stendur væri sú að þeirri vinnu væri lokið, en það liggur ekki fyrir. Þegar henni lýkur getum við stigið þessi skref.