149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:02]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Eins og ráðherrann sjálfur kom inn á hafði hann ekki mikinn tíma til að fara yfir málaflokkinn og enn síður höfum við óbreyttir þingmenn mikinn tíma til að fara yfir málaflokkinn á okkar tveimur mínútum. Hér eru hins vegar mörg mál undir og ég ætla þess vegna að þrengja aðeins fókusinn og byrja á að spyrja hæstv. ráðherra út í fæðingarorlofið. Samkvæmt fjármálaáætlun og þeirri umræðu sem hefur verið á opinberum vettvangi að undanförnu eru öll áform um að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði, byrja á einum mánuði á næsta ári og svo tveimur á þar næsta.

Mig langar að fá ráðherra til að ræða við mig í fyrsta lagi hvernig áform eru um að því verði skipt og hvort búið sé að ákveða hvernig verður skipt, þ.e. hvort verði skipt í fimm og fimm mánuði og tvo sameiginlega eða hvað.

Mig langar líka að fá ráðherra til að staðfest að rétturinn til fæðingarorlofs verði 12 mánuðir á hvert barn óháð því hvort barnið eigi eitt foreldri eða tvö.

Svo bið ég hæstv. ráðherra að ræða það lítillega, hafi hann til þess einhvern afgang af tíma sínum, hvaða aðferðum ráðuneytið hyggst beita til þess að auka aftur fæðingarorlofstöku feðra, sem því miður hefur verið á undanhaldi að undanförnu og mikilvægt að reyna að mínu viti með öllum ráðum að snúa þeirri þróun við.