149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:06]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Í seinna viðtalsbilinu langar mig að ræða við hæstv. ráðherra um vinnumarkaðinn og spyrja hvort ráðherra telji nóg að gert í að tryggja réttindi á vinnumarkaði. Þá er ég að tala um kennitöluflakk, keðjuábyrgð, mansal og þess háttar þætti, sem eru að hluta til undir eftirlitsstofnunum hans. Ég tel að með hertu eftirliti og hertri löggjöf megi ekki bara tryggja réttindi þeirra sem við á heldur líka tryggja að ríkið verði ekki af tekjum sem það getur orðið af vegna alls konar ólöglegrar atvinnustarfsemi og undirmálsstarfsemi, þess vegna sé þarna sennilega ein af matarholum (Forseti hringir.) sem við gætum seilst í.