149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:07]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni hvað þetta snertir. Þarna þurfum við ávallt að vera á verði. Við tókum góða umræðu um þetta í þinginu í sérstakri umræðu sem hv. þm. Þorsteinn Víglundsson var með fyrr í vikunni. Við erum að vinna eftir þeim tillögum sem allir aðilar sammæltust um, tíu tillögur um aðgerðir gegn félagslegum undirboðum á vinnumarkaði. Við höfum unnið mjög þétt eftir því og hver og einn ábyrgðaraðili í tillögunum vinnur sínar tillögur. Sú samstarfssveit eða „sérsveit“ sem átti að setja þarna upp hefur þegar fundað, gerði það í síðustu viku. Er hún að móta sér verklagsreglur og ákveða með hvaða hætti hún ætlar að starfa. Ég held að í krafti samstarfsins og samvinnunnar þar á milli muni nást alveg ótrúlega miklar framfarir í þeim málum. (Forseti hringir.) En jafnvel þó að við myndum auka fjármuni til einstakra stofnana held ég að samvinnan ein og sér nái fram ótrúlega miklum slagkrafti.