149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:09]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég hef, eins og fleiri þingmenn, ákveðnar áhyggjur af því að í þessari fjármálaáætlun muni öryrkjar óhjákvæmilega verða út undan eina ferðina enn. Það helgast alls ekki af því að það skorti góðan vilja hjá ráðherra, en mér sýnist algjörlega skorta fjármagn til að ráðast í þær breytingar sem boðaðar hafa verið. Mig langar aðeins að fá hæstv. ráðherra til að fara betur ofan í það. Nú er búið að leggja mikla vinnu í boðaðar kerfisbreytingar og liggur fyrir, að mér skilst, meira og minna tilbúin sú aðgerðaáætlun sem vinna á eftir í þeim efnum.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra í fyrstu lotu tveggja einfaldra spurninga: Hver er kostnaðurinn við þær breytingar sem þar eru áformaðar? Þær hljóta að hafa verið kostnaðargreindar, því sá kostnaðarauki sem sjá má í fjármálaáætluninni rímar engan veginn við það kostnaðarmat sem ég hef séð á þessu hingað til, sér í lagi þegar kemur að t.d. mikilvægasta skrefinu sem er afnám krónu á móti krónu skerðingarinnar. Ég held að við hæstv. ráðherra séum hjartanlega sammála um að það sé kannski eitt mikilvægasta skrefið til þess að draga úr nýgengi örorku og hvetja til atvinnuþátttöku fólks með skerta starfsgetu af hvaða orsökum sem þær eru. Það er fyrsta spurningin: Hvert er kostnaðarmatið á þeim aðgerðum?

Ég óttast að það sé verið að fjármagna þann áætlaða kostnað með mjög metnaðarfullum áformum um snarlækkandi nýgengi örorku, sem er kannski óraunhæft að ætla að gerist eins skarpt og þarna er reiknað með. En hæstv. ráðherra gæti kannski farið yfir hvaða aðgerðir eru sérstaklega hugsaðar til þess að ná því fram og hvaða fjármagn er veitt til þeirra aðgerða.