149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:13]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég á bágt með að trúa því, hæstv. ráðherra, að þær breytingar sem unnið hefur verið með í starfshópnum hafi ekki verið kostnaðarmetnar, ég trúi ekki öðru miðað við virka þátttöku ráðuneytisins í þeirri vinnu en að unnið hafi verið með einhverjar kostnaðartölur. Það hlýtur einfaldlega að hafa verið gengið út frá einhverjum ramma þar. En í fyrirspurn í ráðherratíð minni á sínum tíma til þingsins þá held ég að það hafi komið fram að það myndi kosta eina 11 milljarða að afnema krónu á móti krónu skerðinguna eina og sér, fyrir utan aðrar þær breytingar sem kynnu að verða gerðar á framfærslukerfi örorkulífeyrisþega.

Ég tek undir með hæstv. ráðherra að þetta er gríðarlega mikilvægur málaflokkur og þetta er ekki bara spurning um einhverja kostnaðartölu fyrir ríkið, þetta snýst um lífsgæði fólksins sem í hlut á og við eigum öll að taka undir og hraða sem mest þessari endurskoðun á kerfinu.

Ég hef auðvitað áhyggjur af því ef gengið er út frá því að fjármögnun breytinganna verði fyrst og fremst með (Forseti hringir.) fækkun í hópi nýrra öryrkja, ef svo mætti að orði komast, það sé mjög óraunhæft þegar (Forseti hringir.) er að kólna á vinnumarkaði, alveg burt séð frá þeim metnaði sem liggur að baki. En ég spyr enn og aftur: (Forseti hringir.) Hvaða fjármagn er lagt í þær aðgerðir sem eiga að stuðla að þeim breytingum?

(Forseti (JÞÓ): Forseti minnir þingmenn á að halda ræðutíma.)