149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:15]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Jú, vissulega hefur verið unnið með starfshópnum en ég held að það sé eðlilegast að þegar hópurinn kynnir sínar tillögur þá sé þetta eitt af því sem kynnt er þar. Varðandi síðan fjármögnunina, þegar þær tillögur hafa verið kynntar og útfærðar nánar og eftir atvikum kannski kostnaðargreindar eitthvað dýpra, er hægt að ráðast í breytingar eða sækja fjármagn ef það þarf meira en lagt er upp með í núverandi ríkisfjármálaáætlun, sem má alveg reikna með.

Í þessu sambandi vil ég bara benda á samtal sem mig minnir að ég og hv. þingmaður höfum átt um fjármálaáætlun í fyrra þar sem við ræddum fæðingarorlof. Hv. þingmaður gagnrýndi mjög að það væri ekki fjármagnað í áætluninni. Nú er það komið inn fjármagnað vegna þess að við sögðum að þegar við myndum ljúka þeirri vinnu og taka ákvörðun þá kæmi það inn. (Gripið fram í.) Varðandi innleiðingu á nýju starfsgetumatskerfi þá getur hv. þingmaður treyst því, alveg eins og með lenginguna á fæðingarorlofinu, að ríkisstjórnin (Forseti hringir.) mun koma með fjármagn til þess að innleiða það.