149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:16]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Í stjórnarsáttmálanum er lögð áhersla á að styrkja sérstaklega stöðu þeirra sem höllum fæti standa, ekki síst stöðu barna sem búa við fátækt. Ég þakka hæstv. félags- og barnamálaráðherra fyrir innlegg hans í umræðuna um framtíðarfjármálaáætlun til næstu fimm ára. Eðli málsins samkvæmt er mér sérstaklega hugleikinn sá málaflokkur sem lýtur að börnunum okkar og hefur mér verið sýndur sá sómi af ráðherra að vera talsmaður Flokks fólksins í þeim hópi sem hann hefur skipað til að halda utan um málefni barna og móta nýja stefnu þeim til handa.

Mig langar að taka á þeim þáttum sem valda mér miklu angri. Það er t.d. skýrsla Kolbeins Stefánssonar sem hann birti og kynnti 28. febrúar sl., sem hann vann fyrir Velferðarvaktina. Þar kemur fram að um 10%–15% íslenskra barna búi við mismunandi efnahagslega erfiðleika, búi við fátækt.

UNICEF birti skýrslu sína í lok janúar 2016. Þar kemur fram að 9,1% íslenskra barna búi við mismikinn skort, á sjöunda þúsund barna búi við þó nokkuð mikinn skort og 1.536 börn búi við sára fátækt.

Ég spyr hæstv. ráðherra í fyrstu umferð: Viljinn virðist góður en erum við að gera nóg núna, hæstv. barnamálaráðherra, í því að útrýma fátækt? Talað er um að lengja fæðingarorlofið um einn mánuð og að hækka barnabætur. Hvernig útrýmir það fátækt barna á Íslandi, þótt það sé ákveðinn góðvilji í þá átt?