149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:19]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á því að svara spurningunni hvort við séum að gera nóg. Nei, við erum aldrei að gera nóg og þurfum alltaf að gera meira. Það er samt verið að stíga gríðarlega mikilvæg skref í þá átt. Fæðingarorlofið, bæði lenging þess og breytingar á fæðingarorlofskerfinu, er eitt þeirra atriða sem m.a. Kolbeinn Stefánsson kynnti í skýrslu sinni að væru aðgerðir sem þyrfti að ráðast í til þess að styrkja stöðu barna.

Í tengslum við það erum við líka búin að boða heildarendurskoðun fæðingarorlofslaganna þar sem horft verður m.a. til þess hvernig hægt er að styrkja stöðu barna sem búa á heimilum sem ekki hafa mikið milli handanna. Síðan erum við með til skoðunar mál sem snúa að breytingum á bótakerfinu til þess að geta gripið þann hóp betur, einkum og sér í lagi eftir skýrslu Kolbeins Stefánssonar. Þar var bent á ákveðna þætti sem snúa m.a. að húsnæðisbótum og hvernig hægt sé að gera breytingar á því stuðningskerfi þannig að það nái betur til þessa hóps barna.

Jafnframt er gríðarlega mikilvægt að við fáum reglulega tölur um þetta. Hv. þingmaður vitnar til skýrslu UNICEF frá 2016 en ný skýrsla er væntanleg frá þeim. Ég held að mjög mikilvægt sé að fá hana og er hún m.a. unnin vegna þess að ríkisstjórnin ákvað að við vildum fá aukaskýrslu. Við viljum fá að vita stöðuna reglulega, hver staða barna er sem búa við fátækt, vegna þess að við viljum draga úr fátækt. Við þurfum reglulegar niðurstöður og ég teldi eðlilegast að slík skýrsla væri unnin a.m.k. annað hvert ár ef ekki árlega. Skýrslan sem er væntanleg núna er unnin vegna þess að ríkisstjórnin óskaði sérstaklega eftir henni og setti fjármagn í vinnu við hana, annars hefði það ekki verið gert fyrr en seinna.

En við erum aldrei að gera nóg. Hvert barn sem býr við fátækt er einu barni of mikið.