149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:21]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Þá langar mig að spyrja: Hefur ekki komið til tals í ráðuneyti hans, og jafnvel þá að frumkvæði hans, að ganga til samstarfs við sveitarfélög, t.d. Reykjavík og fleiri sem á þurfa að halda, og afnema leikskólagjöld bláfátækra foreldra eða skólamáltíðir bláfátækra foreldra barna í grunnskólum og námsmanna og sjá til hvernig kerfið hefur virkað, ef við viljum líta okkur pínulítið nær, hjá til að mynda nágrönnum okkar í Danmörku?

Það eru ýmsir þættir sem við getum gert til að sporna við fátækt. Við horfum fram á vanlíðan, óöryggi, þunglyndi, sjálfsskaða barna. Við vitum að yfir 1.000 börn eru hætt að sækja grunnskólann og staðan hefur aldrei verið eins slæm. Spurningin er líka um hvers lags fjölskyldustefnu við rekum í raun þegar við horfumst í augu við jafn neikvæða þróun í samfélaginu og raun ber vitni.