149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:22]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Jú, þau mál hafa komið upp og eru í samtali. Til dæmis varðandi fæðingarorlofið er gott samtal í gangi á milli félagsmálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um hvernig hægt sé að gera breytingar á fæðingarorlofskerfinu. Það er auðvitað erfitt gagnvart leikskólum, leikskólagjöldum og eins tómstundum sem eru á hendi sveitarfélaga að tryggja stöðu þeirra barna sem búa við fátækt. Sveitarfélögin verða að koma því.

En það er í gangi samtal m.a. í stýrihópi í málefnum barna um hvernig hægt sé að ráðast í breytingar og hvernig við getum fengið sveitarfélögin með okkur í þá vinnu, vinnu sem var sett af stað m.a. í kjölfarið á skýrslu Kolbeins Stefánssonar. En við verðum að hafa sveitarfélögin með okkur í þeirri vinnu og til þess þarf samtal við þau. Ég vonast til þess að okkur takist að koma með aðgerðir í samstarfi við sveitarfélögin og önnur ráðuneyti til að bæta stöðu þeirra barna sem búa við fátækt.