149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:24]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Um aldraða og atvinnuþátttöku þeirra segir ríkisstjórnin í þessari áætlun á blaðsíðu 404, með leyfi forseta:

„Í því skyni að tryggja að meginmarkmiðum verði náð er lögð áhersla á að öldruðum verði með sveigjanlegum starfslokum gert kleift að vinna lengur og þar með auka atvinnutengd lífeyrisréttindi sín og séreignarlífeyrissparnað. Þá er áhersla á að auka atvinnuþátttöku þeirra sem hafa þegar hafið töku lífeyris. Einnig er mikilvægt að bæta stöðu aldraðra einstaklinga sem búa á Íslandi en hafa áunnið sér lítil eða engin réttindi í almannatryggingum hér á landi vegna búsetu erlendis.“

Svo mörg voru þau orð. En hvað gerir ríkisstjórnin? Jú, hún skerðir allt sem aldraðir vinna sér inn yfir hundraðþúsundkallinn. Ríkisstjórnin treystir sér ekki til að taka undir tillögu Miðflokksmanna um að atvinnutekjur rýri ekki lífeyristekjur, þ.e. að mönnum sé frjálst að vinna sér inn lifibrauð án þess að rýra lífeyristekjur sínar.

Hvað gerir ríkisstjórnin til þess að til að auka atvinnuþátttöku þeirra sem eru eldri? Ríkisstjórnin hefur ekki treyst sér til að taka undir framlagt frumvarp Miðflokksins um að opinberir starfsmenn megi og geti, ef þeir vilja, unnið til 73 ára aldurs.

Þetta tvennt getur ríkisstjórnin gert strax. Í staðinn fyrir að setja fram orð sem hún ætlar ekki að standa við, greinilega, getur hún tekið undir þetta með okkur Miðflokksmönnum núna strax og leiðrétt þetta óréttlæti nú þegar.

Nú ætla ég að spyrja hæstv. ráðherra: Er hann og ríkisstjórnin til í að styðja við framlagt frumvarp Miðflokksins um að ríkisstarfsmenn megi vinna, ef þeir vilja og kjósa, til 73 ára aldurs? Er hann tilbúinn í það að taka undir að lífeyristekjur skerðist ekki vegna atvinnutekna?