149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:26]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Áður en ég svara spurningunni: Það er ágætt að hv. þingmaður kom sérstaklega inn á að ríkisstjórnin hygðist ráðast í aðgerðir til að styðja við þá sem ekki hefðu áunnið sér réttindi í kerfinu hér. Ég upplýsti í minni framsögu að vinna við slíkt frumvarp er hafin. Vonandi getum við komið því á eftir vinnu starfshóps sem skipaður var. Unnið var í góðu samstarfi og samráði við Landssamband eldri borgara og ákveðið að taka þennan hóp sérstaklega fyrir til að byrja með.

Vinnan við það er hafin. Ég fundaði með Landssambandi eldri borgara í morgun þar sem við vorum að fara yfir stöðuna á þeirri frumvarpsgerð. Í framhaldinu var það skilningur beggja aðila, bæði ríkisstjórnarinnar og Landssambands eldri borgara, að síðan mundum við fara yfir stöðu næstu tíunda þar fyrir ofan, sem sagt annarrar og þriðju tekjulægstu tíundarinnar. Við erum að forma núna í góðu samstarfi við Landssamband eldri borgara með hvaða hætti ráðist verði í þá vinnu.

Þetta er sú forgangsröðun sem ríkisstjórnin vinnur eftir. Að vinna í góðu samstarfi við Landssamband eldri borgara að þessum málum.

Síðan höfum við auðvitað unnið út frá þeim tillögum sem lagðar voru fram í starfshópi sem hv. þingmaður fór fyrir þegar hann var reyndar ekki í núverandi stjórnmálaflokki, þá var hann í Framsóknarflokknum, áður en hann gekk í Miðflokkinn.

Það er svo ánægjulegt að þær tillögur sem unnið var að þar hafa bætt kjör eldri borgara. Það sýnir nýtt tekjumódel. Þannig að við höfum bara verið að vinna eftir þeim tillögum sem þar voru innleiddar en erum sammála því og erum í samtali um það við Landssamband eldri borgara að forgangsatriði sé að ráðast í aðgerðir gagnvart þeim hópum sem lægstar hafa tekjurnar.