149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:28]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég ítreka spurningar mínar og vil fá svör við þeim. Er ráðherra tilbúinn að lýsa yfir stuðningi við það að aldraðir geti unnið sér inn fé án þess að rýra lífeyristekjur sínar? Og er ráðherra til í að styðja frumvarp um að ríkisstarfsmenn geti unnið til 73 ára aldurs?

En það er annað. Ráðherra hefur orðið tíðrætt hér um starfsgetumat og viðræður við Öryrkjabandalagið vegna þess. Á sínum tíma, um áramótin, bentum við á að það væri ranglátt að hengja þessar 1.100 milljónir sem menn tóku til hliðar í það að öryrkjar samþykktu starfsgetumat.

Öryrkjar orða þetta sjálfir svo á heimasíðu sinni, með leyfi hæstv. forseta:

„Núverandi ríkisstjórn rígheldur í kröfu um að þessi óréttláta skerðing,“ — það er króna á móti krónu — „sem tæplega verður kölluð annað en kerfisbundið ofbeldi, verði ekki afnumin nema ÖBÍ fallist á að taka upp svokallað starfsgetumat og breiði faðminn á móti nýju framfærslukerfi almannatrygginga. Það er ekki til umræðu að afnema óréttlætið.“ (Forseti hringir.)

Spurningin er, hæstv. ráðherra: Hvers vegna var ekki þessum 1.100 milljónir strax komið til öryrkja um áramótin? Til hvers á að halda öryrkjum í spennitreyju — eða eins og horfandi í byssuhlaup, að annaðhvort samþykki þeir starfsgetumatið eða fái (Forseti hringir.) engar kjaraleiðréttingar?

(Forseti (JÞÓ): Forseti minnir þingmenn á að halda ræðutíma. Þessi bjölluhljómur var í boði Þorsteins Sæmundssonar, Miðflokksmanns.)