149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:29]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Varðandi fyrri spurninguna: Komi þetta frumvarp hér til atkvæðagreiðslu mun það ekki fara fram hjá hv. þingmanni hvernig sá sem hér stendur greiðir atkvæði. Það er nú kosturinn við hin fjölmörgu þingmannamál sem lögð eru hér fram að þegar þau koma til atkvæða sér hv. þingmaður hvernig sá sem hér stendur, eða aðrir, greiða atkvæði. Enda er eðlilegt, ef þetta er mál sem er í vinnslu í þinginu, að það fái sinn framgang, fari fyrir nefnd og fari í umsagnarferli og svo kemur það hingað inn og fær pólitíska umræðu. Það er þá sem þingmenn og ráðherrar standa frammi fyrir því að greiða atkvæði og þá mun hv. þingmaður sjá hvernig sá sem hér stendur greiðir atkvæði.

Varðandi umræðuna sem var við gerð síðustu fjárlaga vil ég bara benda á að verkefnið fram undan er: Ef okkur tekst ekki að draga úr nýgengi örorku mun fjármagn sem fer í þennan málaflokk fara úr 42 milljörðum 2016 í 90 milljarða árið 2030. Sú staðreynd gerir að verkum að við verðum að ná fram kerfisbreytingum sem draga úr nýgengi örorku. Það er stefna ríkisstjórnarinnar. (Forseti hringir.) Eftir henni er unnið — og engar hótanir eru í því efni. Þetta bara liggur fyrir með þessum hætti og hefur gert alveg frá því að stjórnarsáttmáli núverandi ríkisstjórn var skrifaður. (Gripið fram í.)