149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:33]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa góðu spurningu. Það er alveg rétt að kaflinn er ekki langur er varðar málefni fatlaðs fólks vegna þess að eftir að málaflokkurinn fluttist er það fjármagn að mestu leyti vistað annars staðar en hjá félagsmálaráðuneytinu.

Varðandi það fjármagn sem þarna er og hvort sá sem hér stendur styðji fjármálaáætlun: Að sjálfsögðu styður sá sem hér stendur fjármálaáætlun. Annars væri hún ekki komin út úr ríkisstjórn. Þetta er plagg ríkisstjórnarinnar og allir styðja það. En hins vegar deili ég þeim áhyggjum sem hv. þingmaður hefur almennt af fjármögnun þjónustu við fatlaða. Það liggur alveg ljóst fyrir að kostnaðarskiptingin eins og hún er er ekki að breytast. Við erum ekki að gera breytingar á henni.

En almennt varðandi fjármögnun þessarar þjónustu eigum við talsvert langt í land við að slípa til samskipti ríkis og sveitarfélaga við ekki bara fjármögnun heldur varðandi ýmsar reglugerðir og breytingar á þeim og þeirri nýju löggjöf sem við samþykktum á þinginu á síðasta ári — og reglugerðir, mjög margar, sem fylgdu svo í framhaldinu. Þarna eru strax komin atriði sem munu þurfa að taka breytingum og atriði sem eru óljós og óskýr, eins og gengur og gerist.

Þannig að það er talsvert langt í land, held ég, að við förum að ræða það að flytja málaflokk aldraðra yfir til sveitarfélaga.

Þar spilar að sjálfsögðu að einhverju leyti inn í fjármagn en líka bara held ég að þetta verkefni, að flytja málefni fatlaðra yfir, sé stærra og meira og þarfnist lengri tíma.

Hvort þessar tillögur sem þarna eru spilli einhverju samtali milli félagsmálaráðuneytisins um að brúa bilið? Ja, við höfum verið í mjög góðu samtali og samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og ræddum þetta m.a. við sambandið á reglulegum fundi í síðustu viku og fyrir mánuði síðan. Þannig að ég hef ekki fundið að það (Forseti hringir.) spilli því. En það er alveg ljóst að þetta hefur ekki jákvæð áhrif innan sambandsins almennt gagnvart samtali við ríkisvaldið. Það liggur ljóst fyrir.