149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:35]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og er glöð að heyra að hann virðist vera sammála mér varðandi áhyggjur af samskiptum ríkis og sveitarfélaga.

Yfir í vinnumarkaðinn. Framtíðarsýn, markmið og aðgerðir í málaflokki 30.1 bera þess augljós merki að á síðustu árum hefur atvinnuástand verið með eindæmum gott. Sem er frábært. Snúa markmiðin og verkefnin fyrst og fremst að því að vinna gegn langtímaatvinnuleysi og óvirkni á vinnumarkaði, mjög mikilvægt verkefni auðvitað.

En eins og komið er lítillega að í texta áætlunarinnar er fyrirséð að atvinnuleysi virðist vera að aukast og augljós merki eru um kólnun hagkerfisins. Auðvitað vonum við öll að það fari ekki illa, en í ljósi þess hversu illa undirbúin ríkisstjórnin virðist hafa verið í mörgum málum upp á síðkastið lýsi ég áhyggjum af því að ekki sé gert ráð fyrir viðbrögðum við breyttum aðstæðum á vinnumarkaði í áætluninni og spyr því hvort ekki sé gert ráð fyrir því í vinnu ráðuneytisins að atvinnuleysi sé að aukast og hvort ekki sé búið að vinna sviðsmyndir um (Forseti hringir.) mögulega breytta stöðu á vinnumarkaði.