149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:36]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Jú, vissulega tek ég undir með hv. þingmanni að það er margt í atvinnulífinu núna sem bendir til þess að það sé að hægja á og kólna og hefur gert það í talsverðan tíma. Við höfum verið meðvituð um það og ríkisstjórnin í heild sinni hefur verið að fara yfir þessi mál.

Þess vegna gat ég þess sérstaklega hér í minni framsögu, sem ekki var mjög löng, að það væri rétt að geta þess að útgjöld vegna atvinnuleysisbóta væru ekki talin með inni í þessu hér, vegna þess að þau eru ekki hluti af rammasettum útgjöldum ríkissjóðs.

Við erum hins vegar mjög meðvituð um þær breytingar sem eru að verða á vinnumarkaðnum og erum þegar byrjuð að sjá að greiðslur, m.a. frá Atvinnuleysistryggingasjóði, eru að byrja að hækka. Það má búast við því að það verði frekari hækkanir þar. En það fylgjast auðvitað allir mjög vel með núna hver framvindan er í ferðaþjónustunni og hvaða áhrif hún kann að hafa, vegna þess að hún getur haft áhrif á tekjur ríkissjóðs og áhrif á atvinnuleysi.

En það er mjög erfitt þegar við erum með tímasett hvenær við ætlum að leggja fram (Forseti hringir.) fjármálaáætlun annað en að taka bara stöðuna eins og hún er þá og þá. (Forseti hringir.) Við vinnum síðan með það í framhaldinu ef breytingar verða. En við vöktum þetta mjög vel.