149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:38]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Mig langar til að ræða aðeins fæðingarorlof við hæstv. ráðherra. Nýlega kom út skýrsla velferðarvaktarinnar um fátækt barna og kom í ljós að börn einstæðra foreldra væru í mjög viðkvæmri stöðu. Nú stendur til að lengja fæðingarorlofið, sem er fagnaðarefni, en ekkert tillit virðist eiga að taka til þeirra barna sem eiga bara eitt foreldri, sem hefur áhuga, vilja eða getu til að hlúa að því.

Ef við skoðum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og þá áherslu sem við leggjum í auknum mæli á réttindi barna og ef við tökum inn í dæmið hversu mikilvægt það er fyrir þroska barnsins að eiga tíma með foreldrum sínum, eða foreldri í þeim tilfellum sem báðir foreldrar eru ekki til staðar, þá ætti það að vera alveg ljóst að fæðingarorlof á að snúast um þarfir barnsins, þ.e. verðmætan og streitulausan tíma með foreldrum, eða foreldri, til að tryggja heilbrigðan þroska. Sá tími er mjög skertur eins og staðan er núna, einkum þegar kemur að einstæðum foreldrum, þar sem barnið fær mögulega aðeins sex mánuði með foreldri sínu í staðinn fyrir níu, eins og þau börn sem eiga tvo foreldra.

Nú á að lengja þann tíma sem börn fá með foreldrum sínum í 10 mánuði á næsta ári og að lokum 12 mánuði árið 2024, en börn sem eiga bara eitt foreldri, sökum áhuga- eða getuleysis hins foreldrisins, fá áfram bara sex mánuði á næsta ári og að lokum sjö mánuði árið 2024 með þessu foreldri sínu. Ég get ekki séð að hér sé verið að huga að viðkvæmasta hópi foreldra og barna, þ.e. börnum einstæðra foreldra. Það er ekki nóg að börn hafi einungis sex eða sjö mánuði með foreldri sínu.

Ég spyr því hvernig hæstv. ráðherrar er að hugsa þetta. Á einhvern veginn að skikka foreldra til að standa sína plikt og er það barninu endilega fyrir bestu? Eða eiga þessi börn bara minni rétt á tíma með foreldri sínu?

Ég get ekki séð að þessi áform um skiptingu fæðingarorlofs samrýmist þeim barnaverndarsjónarmiðum sem ráðherra hefur talað fyrir nema það sé eitthvað sem ég veit ekki af og bið þá hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra um að upplýsa mig. En er ráðherra opinn fyrir því að skoða leiðir (Forseti hringir.) til að jafna rétt barna sem eiga bara eitt foreldri?