149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:42]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég átti samtal við hæstv. heilbrigðisráðherra fyrr í dag um styttingu vinnuvikunnar. Var það samtal í samhengi við vaxandi einmanaleika meðal aldraðra, aukna sjúkdómabyrði og það tilgangsleysi sem yngri kynslóðir upplifa í vaxandi mæli í nútímasamfélagi, þá streitu sem virðist vera nýja normið þar sem fjölskyldur verja of miklum tíma í vinnu í stað þess að hlúa að fjölskyldu, vinum og hugðarefnum. Það sem við ættum að vera að gera með þessari fjármálaáætlun er að leggja grunninn að því að tryggja efnahagsleg réttindi fólks, fjárfesta í einstaklingum og veita þeim svigrúm til að stíga upp úr daglegu amstri, staldra við og spyrja sig hvað skipti mestu máli í þessu lífi og veita fólki frelsi til þess að gera meira af því og stytting vinnuvikunnar er eitt skref í þeirri vegferð.

Hæstv. heilbrigðisráðherra tók undir mikilvægi þess að skoða vandamálin heildstætt og sjá möguleikana á þeim ávinningi sem stytting vinnuvikunnar gæti falið í sér fyrir samfélagið. Spurning mín til hæstv. félagsmálaráðherra er: Deilir hann þeirri sýn?