149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:43]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Já, ég deili þeirri sýn að það er gríðarlega mikilvægt að við förum að huga betur að grunngildum mannlegs lífs og stytting vinnuvikunnar er eitt af þeim atriðum sem þar skipta miklu máli. Þess vegna höfum við verið með í gangi tilraunaverkefni sem miðar að því að stytta vinnuvikuna hjá opinberum stofnunum. Þar er í gangi svona rannsókna- og tilraunaverkefni núna sem í taka þátt fjórar ríkisstofnanir og er væntanlegt að niðurstöður úr því verði kynntar nú á vordögum. Þetta er líka eitt þeirra atriða sem er í samtali við BSRB og BHM varðandi mögulega aðkomu að kjarasamningum. En varðandi samninga á almennum vinnumarkaði hefur komið fram hjá bæði Samtökum atvinnulífsins og stéttarfélögum að þetta sé eitt atriða sem þar er til umræðu. En ríkisvaldið hefur verið að undirbúa sig með þessu tilraunaverkefni og við höfum m.a. stutt það með fjármunum að geta (Forseti hringir.) verið með allar tegundir vinnustaða þarna inni. Þannig að ég held að þetta sé klárlega eitt af því sem skiptir máli og ég deili þeirri sýn með hæstv. heilbrigðisráðherra.