149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:47]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Varðandi hækkun greiðslna er alveg ljóst að þetta hefur ekki fylgt verðlagi. Þess vegna höfum við verið að stíga skref til hækkunar þarna og erum komin upp í 600.000. Ekki er gert ráð fyrir því í núgildandi fjármálaáætlun að þetta sé tengt við vísitölu launa þannig að sjálfstæðar ákvarðanir þurfa að koma til um hækkun við afgreiðslu fjárlaga eða við afgreiðslu fjármálaáætlunar hverju sinni.

Í síðustu fjármálaáætlun var stigið það skref að ráðast í hækkun upp í 600.000, sem var 80.000 kr. hækkun. Í núgildandi fjármálaáætlun erum við að stíga hið mikilvæga skref að ráðast í þessa lengingu á næstu tveimur árum, einn mánuð á næsta ári og tvo á þarnæsta, þannig að hver veit nema að í næstu fjármálaáætlun þá stígum við enn frekari skref. En við þurfum að fylgjast með þróuninni varðandi töku fæðingarorlofsréttar og annað. En ég held að það sé ekki síður mikilvægt að skoða tekjulægstu hópana sem eru að taka fæðingarorlof og hvort ástæða sé til þess að hækka það hlutfall sem þeir einstaklingar fá greitt í fæðingarorlofi og fái jafnvel hærra hlutfall en þeir sem eru tekjuhærri. Það myndi ríma mjög vel við nýlega skýrslu Kolbeins Stefánssonar um börn sem búa við fátækt.

Varðandi síðan lengingu fæðingarorlofsins og þann pólitíska vilja hef ég átt samtal og á reglulega fundi með Sambandi íslenskra sveitarfélaga, reyni að funda með þeim að lágmarki einu sinni í mánuði. Við höfum á undanförnum fundum verið að ræða það með hvaða hætti við getum í sameiningu farið í verkefni sem miða að því að lenging fæðingarorlofs komi til og hvað þurfi til. Það samtal er bara í gangi og ekki komin nein lending eða niðurstaða í það. En ég veit að sambandið hefur verið að afla gagna og upplýsinga frá sveitarfélögum vegna þess að þetta er mjög breytilegt milli sveitarfélaga. Sum sveitarfélög eru þegar búin að stíga þetta skref. Önnur hafa áformað það, á meðan líka eru sveitarfélög sem ekki hafa tekið ákvörðun um að stíga þetta skref.