149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:49]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Varðandi það sem hann sagði í upphafi, um að það væri ekki endilega hækkun á hámarksgreiðslum, þá er það vissulega satt og rétt að það getur verið góðra gjalda vert. Ég vona að það gleymist ekki í þeirri hugsun að þetta er mjög mikilvægt jafnréttismál og þetta er til þess að auka atvinnuþátttöku kvenna, og þar sýna rannsóknir að það er ekki síst mikilvægt þess vegna að þakið fari upp. En mig langar að ræða aðeins um horfur í efnahagsmálum. Nýjustu spár spá samdrætti og töluverðu munar á þeim og þeirri spá sem fjármálaáætlunin byggir á. Nú er það svo að þrátt fyrir bjartsýni við áætlunargerðina trúi ég ekki öðru en að ráðherra þessa mikla útgjaldamálaflokks sé með plan B ef til þess kæmi að endurskoða þurfi útgjöldin. Hans biði þá mjög erfitt verkefni varðandi forgangsröðun. Það hefur líka komið fram í umræðunni í dag að þarfar umbætur í málefnum öryrkja eru ekki fjármagnaðar í fjármálaáætluninni, (Forseti hringir.) þannig að ég vil fá að nota tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra í ljósi þess að líkur eru á að þessi spá standist ekki, (Forseti hringir.) þessi efnahagsspá sem áætlunin byggir á: (Forseti hringir.) Treystir ráðherra sér til að verja fyrirhugaða aukningu og umbætur í málefnum öryrkja ef til þess kemur?

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir hv. þingmenn enn á ræðutíma.)