149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:51]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Til að botna fæðingarorlofsumræðuna þá tek ég undir með hv. þingmanni að það að hækka þakið er vissulega jafnréttisaðgerð. Því miður. Ef launin væru jafnari og við værum ekki með svona mikinn launamun milli kynjanna væri þetta ekki aðgerðin sem þyrfti til. Því miður er það svo. Eins og ég sagði áðan erum við að fylgjast með því en þetta er þörf og góð ábending frá hv. þingmanni. Varðandi áætlanagerð og þær fréttir sem berast af atvinnulífinu, varðandi hagvaxtarþróun og annað, þá erum við alltaf að fylgjast með því og vakta hvernig það getur haft áhrif á fjármál ríkissjóðs. Ég ætla ekki á þessum tímapunkti að segja að ef þetta verði eða hitt muni ég gera þetta eða hitt. Það verður bara að koma í ljós. En verkefnið er það sama, þ.e. að verja stöðu lægstu hópa samfélagsins (Forseti hringir.) og reyna að ná fram samfélagsumbótum. Við höfum (Forseti hringir.) séð gríðarlegrar aukningar í þennan málaflokk á síðustu árum og vonandi getum við (Forseti hringir.) haldið því áfram. En það verður tíminn að leiða í ljós.