149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:52]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að tala um fjármálaáætlun fram í tímann við hæstv. félagsmálaráðherra sem sagði í upphafi að það væru rúmar 500 milljónir eyrnamerktar 2020 fyrir búsetuskerðingarnar. Það segir mér að þessi peningur er eyrnamerktur fyrir þá sem eiga ekki nein réttindi erlendis frá og er vitað um hjá Tryggingastofnun ríkisins að eru um 250 einstaklingar. Það segir mér að það eigi ekkert að borga þeim fyrr en í fyrsta lagi 1. janúar 2020 þó að það sé vitað nákvæmlega hverjir þeir eru og hægt væri að byrja að borga strax í dag. Það kom fram á nefndarfundi að það væri byrjað með nýgengi öryrkja. Það var síðan tekið til baka, það væri rangt, það væri ekki verið að gera það. Ég vil fá svar hjá ráðherra við því hvers vegna í ósköpunum þetta dregst svona því að það á að vera mjög auðvelt að sjá til þess að þetta sé gert.

Síðan er hitt, það sem er ekki inni í fjármálaáætlun, það er leiðrétting gagnvart öryrkjum og eldri borgurum. Það hafa allir fengið leiðréttar skerðingar sem urðu vegna hrunsins á sínum launum, þingmenn, ráðherrar og opinberir starfsmenn, ekki bara leiðrétt heldur leiðrétt aftur í tímann, mánuði, ár, en öryrkjar og eldri borgarar alltaf skildir eftir. Það er greinilegt að í þessari fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er ekki reiknað með því á nokkurn hátt að þetta verði leiðrétt. Og hvers vegna ekki? Af hverju þarf þessi stétt, af hverju þurfa eldri borgarar og öryrkjar einir að sitja eftir og fá enga leiðréttingu? Þeir sitja eingöngu uppi með skerðingar sem síðan hafa leitt til þess að í dag er staðan sú að öryrkjar eru langt á eftir atvinnulausum. Ég get ekki ímyndað mér að það sé neitt betra að vera öryrki en atvinnulaus. Hvers vegna í ósköpunum (Forseti hringir.) eru kjörin betri hjá atvinnulausum en öryrkjum?