149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:54]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Já, það er rétt, í fjármálaáætlun eru 500 milljónir fyrir árið 2020 til þess að bregðast við búsetuskerðingunum. Ég vil þó taka fram að það er einungis fjármagn inni á þessu eina ári en ekki árunum á eftir vegna þess að menn vita ekki nákvæmlega hver upphæðin er. Ég geri ráð fyrir því að áður en við leggjum fram fjármálaáætlun á næsta ári þá muni liggja fyrir endanlegur útreikningur á öllum þessum hóp þannig að það sé hægt að setja inn rétta tölu 2021 og 2022.

Hv. þingmaður spyr af hverju það sé ekki fjármagn á yfirstandandi ári en það komi fjármagn í fjármálaáætlun fyrir 2020 til þess að bregðast við þessu. Svarið er að þetta er fyrsta þingmálið sem við ræðum er varðar fjárlög síðan þetta lá raunverulega fyrir, þannig að við værum tilbúin til þess og búin að fá þessa aðgerðaáætlun frá Tryggingastofnun. Við höfum ekki rætt neitt frumvarp varðandi fjárlög fyrir 2019. Við erum hins vegar í samtali við fjármálaráðuneytið, eins og kom fram á opnum fundi í velferðarnefnd, um að fá heimildir til þess að geta byrjað á árinu 2019, hvort það rúmist innan einhverra sjóða eða hvort það er möguleiki í sambandi við fjáraukalög eða eitthvað slíkt. Við erum í því samtali núna við fjármálaráðuneytið að fá úr því skorið hvort ekki sé hægt að byrja á árinu 2019. Ég tel að það væri mjög mikilvægt að við gætum gert það. En það liggur alla vega ljóst fyrir að það er fjármagn fyrir árið 2020.

Ég bendi á að ef ríkisvaldið, stjórnin, hefði ákveðið að stíga það skref að segja við menn: Álit umboðsmanns Alþingis skiptir ekki máli. Þið verðið bara að fara í dómsmál, sem var vissulega möguleiki, þá værum við ekki einu sinni að tala um að gera þetta 2020. Við erum bara að (Forseti hringir.) reyna að fóta okkur innan lagarammans sem skapaður er í kringum fjárlagagerðina og reyna að gera það eins hratt og mögulegt er. (Forseti hringir.) Ég vonast til að við getum flýtt (Forseti hringir.) þessu eitthvað. En það verður alla vega inni fjármagn 2020.