149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:59]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Uppbygging íslenska menntakerfisins gengur vel og ber fimm ára fjármálaáætlun þess merki. Það sama á við um vísindi, menningu og fjölmiðla í landinu. Mennta- og menningarmálaráðuneytið er fjárfestingarráðuneyti. Góð stjórn á þeim málaflokkum er einna líklegust til að auka lífsgæði á Íslandi og að tryggja að fólk vilji búa hér.

Undanfarin ár hafa framlög til háskólastigsins verið aukin töluvert, en frá árinu 2017 til ársins í ár hafa framlögin aukist um 5,3 milljarða kr., eða um tæp 13%. Í fjármálaáætluninni er haldið áfram að fjárfesta í háskólastarfi í landinu, þannig að til viðbótar við hækkanir undanfarinna ára er gert ráð fyrir að auka framlögin til háskóla og rannsóknastarfsemi þannig að þau fari yfir 40 milljarða kr. á tímabilinu og við ætlum að ná OECD-meðaltalinu. Fjárfesting í háskólum er lykilþáttur í að auka samkeppnishæfni Íslands inn í framtíðina í góðri samvinnu við atvinnulífið.

Virðulegi forseti. Stærsta áskorun íslensks menntakerfis er að bæta starfsumhverfi kennara og fjölga þeim í menntakerfinu. Það er eindregin skoðun mín að kennarastarfið sé mikilvægasta starf samfélagsins þar sem það leggur grunninn að öllum öðrum störfum. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er að finna fullfjármagnaðar aðgerðir sem miða að því að fjölga kennurum. Gott menntakerfi verður ekki til án góðra kennara. Kennarar eru undirstaða menntakerfisins og drifkraftar jákvæðra breytinga í skólastarfi.

Vinna við heildarendurskoðun námslánakerfisins gengur vel og hef ég boðað að frumvarp um endurskoðun á Lánasjóði íslenskra námsmanna verði lagt fram nú í haust. Þar mun ég leggja fram umtalsverðar kerfisbreytingar. Markmiðið með nýju kerfi er jafnrétti til náms, jafnari styrkir til námsmanna, aukinn stuðningur við fjölskyldufólk og aukin skilvirkni. Talsverð breyting hefur orðið á stöðu lánasjóðsins undanfarið sem endurspeglast fyrst og síðast í fækkun lánþega hjá sjóðnum, en á sjö ára tímabili hefur fækkun þeirra verið um 52%. Samhliða fækkun undanfarinna ára hafa framlög ríkisins ekki minnkað og ber handbært fé sjóðsins þess glögglega merki. Árið 2013 var það um 1 milljarður, en í lok árs 2018 er gert ráð fyrir 15 milljörðum. Því er staða sjóðsins góð og skapar því kjöraðstæður til þess að fara í kerfisbreytingar til að bæta kjör námsmanna.

Virðulegi forseti. Á síðustu árum hafa framlög til háskólastigsins einnig hækkað verulega. Þannig hafa framlög farið úr rúmum 30 milljörðum árið 2017 í rúmlega 35 milljarða. Þetta jafngildir 16% hækkun. Á tímabili áætlunarinnar mun þessi hækkun haldast inni í kerfinu og munu fjárheimildir halda áfram að hækka allt til ársins 2023. Helstu markmið okkar á framhaldsskólastiginu eru í fyrsta lagi að fjölga útskrifuðum úr starfs- og tækninámi og í öðru lagi að minnka brotthvarf á framhaldsskólastiginu og að lokum að tryggja gæði náms og kennslu.

Á öðrum skólastigum eru markmiðin að fleiri grunnskólanemar hafi við lok grunnskóla náð lágmarksviðmiðum í lestri, styrkja færni í stærðfræði og náttúrufræði og efla gerð og útgáfu námsgagna fyrir nemendur á skólaskyldualdri. Menntun fyrir alla verður áfram leiðarstef í íslenskri menntastefnu sem er nú í mótun.

Virðulegi forseti. Við höfum verið að hækka framlög til menningarmála síðan árið 2017 þegar þau námu um 12 milljörðum kr. og í áætlun okkar gerum við ráð fyrir að þau verði að meðaltali 15 milljarðar árlega. Í menningunni og til fjölmiðlanna erum við m.a. að gera ráð fyrir árlegum stuðningi til bókaútgáfu um 400 millj. kr. og að styðja við starfsumhverfi einkarekinna fjölmiðla um 400 millj. kr. Að auki setjum við nýjar 100 milljónir í stofnun nýs Barnamenningarsjóðs Íslands. Einnig er unnið að því að setja á stofn barna- og vísindasafn til að efla og styrkja áhuga ungu kynslóðarinnar.

Áhersla stjórnvalda á sviði íslenskrar tungu er orðin þekkt, en nýverið talaði ég fyrir þingsályktunartillögu í 22 liðum hvernig við getum eflt íslenskt mál.

Virðulegi forseti. Framlög til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina hækka á seinni hluta ársins 2020 og verður nýtt til að efla enn frekari (Forseti hringir.) samkeppnisstöðu Íslands á sviði rannsókna, þekkingar og nýsköpunar.