149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:05]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir yfirferðina.

Eins og fram kemur í fjármálaáætlun er kynjamunur í starfsnámi mikil áskorun þar sem sumar starfsgreinar eru nær hreinar karlastéttir og aðrar kvennastéttir. Ég velti fyrir mér fjórðu iðnbyltingunni í þessu sambandi og til hvaða úrræða hæstv. ráðherra hyggst grípa. Mun hæstv. ráðherra setja aukið fjármagn til þess að laða að fleiri stelpur eða konur að iðn- og tækninámi? Og að sama skapi: Sér ráðherra fyrir sér að gera slíkt hið sama gagnvart strákum eða körlum? Þá er ég að meina umfram það að vekja áhuga, þó svo að ég sé ekki að gera lítið úr því. En ég spyr einnig vegna þess að það kostar umtalsvert að halda uppi iðn- og tækninámi og spurningin í mínum huga er hvort stjórnvöld séu tilbúin til að fylgja því allt til enda.

En ég velti einnig fyrir mér hvernig hæstv. ráðherra sér fyrir sér að minnka brotthvarf nemenda á framhaldsskólastigi og hvort hæstv. ráðherra hafi myndað sér skoðun á því hvað stytting framhaldsskólastigsins hafi haft í för með sér og þá sérstaklega gagnvart nemendum af erlendum uppruna.

Ég veit að von er á skýrslu um efnið, en ég þigg samt sem áður upplýsingar um það efni þar sem ég tel það mjög brýnt. Ég tel mjög brýnt að við fáum aðeins samtal um það.