149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:07]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góðar spurningar.

Fyrst að starfs-, iðn- og verknámi í landinu. Við höfum verið að horfa upp á að sjá aukningu í iðnnámi úr 12% í 16% síðasta vor og er það auðvitað mikið fagnaðarefni. En það sem við sjáum hins vegar, og það er rétt hjá hv. þingmanni, að talsvert færri stúlkur eða ungar konur sækja starfsnám og við erum að vinna í því að auka áhuga og að kynna námið frekar. Við höfum verið að forgangsraða í þágu starfs- og iðnnáms, sem er gríðarlega mikilvægt vegna þess að þær tölur eru allt aðrar á Íslandi, ef við berum okkur saman við Noreg þar sem við horfum upp á að um 50% fer í bóklegt nám en 50% fer svo í starfs-, verk-, iðn- og tæknigreinar. Það er alveg ljóst að atvinnulífið kallar eftir nemum og fólki sem útskrifast úr slíkum greinum.

Við höfum verið í miklu samstarfi er varðar kynningu og verið með samninga, t.d. varðandi Micro:bit, Verksmiðjuna og margt annað fleira. Efnisgjöldin voru felld niður á fyrstu mánuðum núverandi ríkisstjórnar, þannig að við höfum verið að efla þetta allt til muna og við munum halda áfram. Ef við sjáum að þær tölur haldi ekki áfram að aukast, þ.e. innrituðum nemum, þá munum við grípa til frekari aðgerða.

Hv. þingmaður spurði einnig út í brotthvarfið. Við höfum núna, bara í síðustu fjárlögum, verið að auka umtalsvert stuðning við nema sem þurfa á því að halda og sá stuðningur fór úr 20 milljónum í 60 milljónir á einu bretti. Við erum mjög meðvituð um þetta og erum líka meðvituð um að efla þarf umhverfi þeirra sem eru með annað móðurmál en íslensku. Þessi stuðningur fer m.a. í þá nemendur.