149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:10]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Við erum mjög skýr í þessari ríkisfjármálaáætlun um helstu markmið og áskoranir. Í fyrsta lagi nefnum við að við viljum fjölga þeim sem útskrifast úr starfs- og tæknigreinum og listum þar mjög vel þær aðgerðir sem við erum að fara í.

Í annan stað nefnum við brotthvarfið því að við sjáum að það er meira á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndunum þrátt fyrir að okkur hafi tekist að minnka það, hefur farið úr því að 44% hafa útskrifast á tilsettum tíma á framhaldsskólastigi í 55–56% í lok árs 2018. Við höfum gert umtalsverðar rannsóknir á því til að skoða hvað valdi því að börnin okkar hverfi frá framhaldsskólastiginu. Það er til að mynda það að hafa trú á eigin getu og líka er varðar undirbúning á grunnskólastiginu skiptir mjög miklu máli. Það er svolítið ráðandi breyta um það hvort krakkarnir fari eða hverfi frá framhaldsskólastiginu. Við erum þess vegna að efla allt samstarf við leik- og grunnskólastigið til að minnka brotthvarf.